Tölfræði

Umferðarslys á Íslandi 2009

 

Upplýsingar og samantekt úr skýrslu um umferðarslys á Íslandi árið 2009

Slysaskráning Umferðarstofu byggist á lögregluskýrslum úr gagnagrunni dómsmálaráðuneytisins. Árið 2009 var einnig notast við slysagögn frá Aðstoð og Öryggi ehf. Í einhverjum tilfellum rata umferðaróhöpp ekki í gagnagrunninn heldur beint á borð tryggingafélaga með tjónaskýrslum en það á yfirleitt við í tilfellum þar sem ekki er um slys á fólki að ræða.

Skýrsla 2009.  Mynd1

Markmið stjórnvalda á Íslandi í umferðaröryggismálum

  • Að fjöldi látinna í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa verði ekki meiri en það sem lægst gerist hjá öðrum þjóðum, fyrir árið 2016.
  • Að fjöldi látinna og alvarlega slasaðra í umferðinni lækki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2016
  • Markmiðin miðast við meðaltal fimm ára á undan.
     

Fjöldi slasaðra og látinna í umferðinni 2009

  • Árið 2009 urðu 893 slys með meiðslum og í þeim slösuðust og létust 1299 manns. Þar af voru 187 sem slösuðust alvarlega eða létust en þeir voru 212 árið áður. 1112 slösuðust lítilega en árið árið voru þeir 1373. 17 létu lífið í umferðinni árið 2009 og er sú tala hærri en árin tvö á undan en þó í lægri kantinum sé litið til lengri tíma. Af þeim sem létust voru 14 karlar en 3 konur.
  • Um helmingur allra sem slösuðust voru ökumenn bifreiða. Farþegar bifreiða voru 32%, fótgangandi 7% og önnur 7% voru á bifhjóli. Reiðhjólamenn voru um 3%.
  • Flest slys og óhöpp í umferðinni verða milli klukkan 15 og 18 síðdegis.

Banaslys árið 2009

Slysaskýrsla 09 - Mynd 2

17 létust í 15 umferðarslysum á árinu 2009. 11 þeirra sem létust voru ökumenn eða farþegar í bílum, tveir voru á bifhjóli og tveir voru fótgangandi. Eitt hinna látnu var á fjórhjóli og einn var á dráttarvél.

5 létust í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu árið 2009. Engin banaslys urðu í þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins og því létust 5 í þéttbýli en 12 í dreifbýli.

3 létust af völdum ölvunaraksturs, þar af var um að ræða ölvunar- og hraðakstur í einu tilfellana. Aðrir tveir létust af völdum hraðaaksturs og því létust fimm manns vegna ölvunar- eða hraðaksturs.

Enginn lést undir 17 ára aldri og er það annað árið í röð sem það gerist.

5 af 9 sem létust sem ökumenn eða farþegar í bílum utanbæjar voru ekki í öryggisbeltum. Að mati Rannsóknarnefndar umferðarslysa hefðu öryggisbelti mjög líklega bjargað í flestum þessara tilfella. Í ljósi þess að yfir 94% aðspurðra segjast aldrei aka utanbæjar án belta er ljóst að þeir fáu sem aka án öryggisbelta eru í mun meiri áhættu í umferðinni en þeir sem spenna beltin. Ef við miðum við 300.000 íbúa, eru 18.000 manns sem nota ekki beltið að staðaldri utanbæjar en 282.000 manns sem nota alltaf beltið utanbæjar. 5 létust í fyrri hópnum (5/18000 = einn af hverjum 3600) en 4 úr seinni hópnum (4/282000 = einn af hverjum 70500) svo þeir sem aka utanbæjar án beltis eru í u.þ.b. 20 sinnum meiri lífshættu en aðrir.